Ekki var farið langt að þessu sinni heldur að Náttúrufræðasetrinu við Gróttuvita á Seltjarnarnesi. Þetta var að mörgu leiti ævintýraleg dvöl þar sem sjávarföllin ráða aðgengi, því að það flæðir yfir göngustiginn að húsinu og er ekki aðgengilegt nema í háfjöru.

Krakkarnir byrjuðu að æfa jólalögin þarna í litla húsinu við hafið. Já, þið heyrðuð rétt! En það er ekki seinna vænna þar sem jólatónleikar kórsins fara fram 7. desember í Hafnarfjarðarkirkju. Kórmeðlimir stóðu sig frábærlega í alla staði bæði á æfingum og þar fyrir utan. Á fimmtudagskvöldinu var boðið upp á pizzur, sem hjálparforeldrar útbjuggu með útsjónarsemi og hugviti þegar í ljós kom að enginn bakaraofn var í húsinu! En allt fór vel að lokum, allir fengu pizzu og svo var haldin frábær kvöldvaka með leikjum og atriðum sem allir gátu tekið þátt í og gerði það mikið fyrir hópinn sem hefur eflst mikið. Það voru tíundu bekkingarnir í kórnum sem sáu um kvöldvökuna og gerðu það svona listavel.
Það er margt spennandi framundan í vetur, fyrir utan afmælishátíð kórsins og utanlandsferð, þá erum við að fara í skemmtilegt samstarf með engum öðrum en EMMSÉ GAUTA! Meira um það síðar!