Stoðþjónusta

Nám og kennsla

Brúin

Í skólanum er sérstakt brúarteymi þar sem unnið er í sameiningu til að auka farsæld barna og fjölskyldna þeirra. Í teyminu situr fagfólk á vegum skólans, ásamt ráðgjöfum frá fjölskyldu- og barnamálasviði og mennta- og lýðheilsusvið. Brúarteymið kortleggur stöðu barnsins og leitar sameiginlegra lausna til að styðja við barnið og fjölskyldu.

Nemendaverndarráð

Hlutverk nemendaverndarráðs er að taka við öllum erindum, bæði frá starfsfólki og foreldrum, um stuðningsþjónustu skólans og koma þeim í farveg sem leiðir til lausna á þeim.

Foreldrar sem telja að barn þeirra þurfi á stuðningi að halda geta haft samband við umsjónarkennara barns eða deildarstjóra sérkennslu, Lindu Dröfn Sigurðardóttir. Foreldrum er alltaf tilkynnt ef málum barna þeirra er vísað til ráðsins. Ráðið heldur fundi vikulega.

Í ráðinu sitja:
  • Skólastjórnandi
  • Námsráðgjafi
  • Hjúkrunarfræðingur
  • Sálfræðingur
  • Deildarstjórar

Umsjónarkennarar og aðrir eru boðaðir til fundar eftir þörfum. Ráðið er bundið þagnarskyldu um einkamál nemenda, að undanskildum atvikum sem ber að tilkynna samkvæmt lögum.

Heilsugæsla

  • Skólahjúkrunarfræðingur: Andrea G. Ásbjörnsdóttir
  • [email protected]
  • Viðverutími
  • Mánudaga 8:30–15:30
  • Þriðjudaga 08:30–13:00
  • Miðvikudaga 08:30–12:00
  • Fimmtudaga 08:30–15:30
  • Föstudaga 08:30–12:00

Heilsuvernd skólabarna í Öldutúnsskóla er á vegum Heilsugæslunnar í Firði. Heilsuverndin er hluti af heilsugæslunni og framhald af ung- og smábarnavernd. Markmiðið er að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Starfsfólk heilsuverndar skólabarna vinnur í náinni samvinnu við foreldra, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda með velferð þeirra að leiðarljósi.

Þjónusta heilsuverndar skólabarna er skráð í rafræna sjúkraskrá heilsugæslunnar. Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál.

Helstu áherslur í heilsuvernd nemenda eru:
  • Fræðsla, forvarnir og heilsuefling.
  • Bólusetningar.
  • Skimanir.
  • Viðtöl um heilsu og líðan.

Unnið er samkvæmt leiðbeiningum Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu og Embættis landlæknis um heilsuvernd grunnskólabarna. Sjá nánar á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Heilbrigðisfræðsla

Skipulögð heilbrigðisfræðsla er veitt í öllum árgöngum og er áherslan á að hvetja til heilbrigðra lífshátta. Eftir fræðslu fá foreldrar upplýsingar í tölvupósti um fræðsluna og gefst þá kostur á að ræða við börnin um það sem þau lærðu og hvernig hægt er að nýta það í daglegu lífi.

Markmið hverrar fræðslu eftir árgöngum er hægt að sjá á Heilsuveru.

  • 1. bekkur

    „Líkaminn minn“ – forvörn gegn kynferðislegu ofbeldi og hjálmanotkun.

  • 2. bekkur

    Tilfinningar.

  • 3. bekkur

    Verkefnabók um 6H heilsunnar (Hamingja, Hollusta, Hreinlæti, Hreyfing, Hvíld).

  • 4. bekkur

    Kvíði og slysavarnir.

  • 5. bekkur

    Samskipti.

  • 6. bekkur

     Kynþroski og endurlífgun.

  • 7. bekkur

    Bólusetningar.

  • 8. bekkur

    Sjálfsmynd og samskipti, hugrekki og endurlífgun.

  • 9. bekkur

    Kynheilbrigði og bólusetning.

  • 10. bekkur

    Geðheilbrigði, endurlífgun og ábyrgð á eigin heilsu.

Skimanir

Skimað er fyrir ákveðnum heilbrigðisvandamálum í 1., 4., 7. og 9. bekk. Þær felast í mælingu á hæð, þyngd og sjónskerpu. Nemendur í öðrum árgöngum eru skimaðir eftir þörfum. Ef frávik reynist í skimun er haft samband við forsjáraðila.

Heilsueflandi viðtöl um lífsvenjur og líðan

Þegar skimanir fara fram í 1., 4., 7. og 9. bekk ræðir skólahjúkrunarfræðingur við nemendur um líðan og lífsvenjur. Markmið viðtalanna er að styrkja vitund nemenda um eigið heilbrigði og líðan. Ef vart verður við vanlíðan eða áhyggjur er gripið til úrræða.

Bólusetningar

Bólusetningum er ætlað að verja einstaklinginn gegn alvarlegum smitsjúkdómum. Í 7. bekk er bólusett við mislingum, hettusótt og rauðum hundum (1 sprauta) og HPV (Human papilloma veirum) sem geta valdið leghálskrabbameini. HPV-bólusetning er gefin tvisvar með 6 mánaða millibili. Í 9. bekk er bólusett við barnaveiki, stífkrampa, kíghósta og mænusótt (ein sprauta).

Fyrir bólusetningu fá foreldrar tölvupóst með upplýsingum um tímasetningu. Það er á ábyrgð foreldra að láta bólusetja börn sín. Gott er að nemendur komi með bólusetningarskírteini sín í skólann þegar bólusetning fer fram.

Hafið samband við skólahjúkrunarfræðing ef:

  • talið er að barn sé ekki að fullu bólusett
  • óskað er eftir því að barn sé ekki bólusett
  • nánari upplýsinga er óskað

Sjá meira um bólusetningar

Veikindi og slys

Ef óhapp eða slys verður á skólatíma sér starfsfólk skólans um fyrstu hjálp. Þurfi nemandi að fara á heilsugæsluna eða slysadeild skulu foreldrar fara með barninu. Því er mikilvægt að skólinn hafi öll símanúmer þar sem hægt er að ná í þá á skólatíma barnsins. Ekki er ætlast til að óhöppum sem gerast utan skólatíma sé sinnt af heilsuvernd skólabarna.

Langveik börn

Mikilvægt er að skólahjúkrunarfræðingur viti af börnum sem eru með fötlun eða langvinnan eða alvarlegan sjúkdóm, til dæmis sykursýki, ofnæmi, flogaveiki, blæðingarsjúkdóma eða aðra alvarlega sjúkdóma. Hlutverk skólahjúkrunarfræðingsins er að skapa þessum börnum viðeigandi aðstæður og umönnun í skólanum í samvinnu við foreldra og starfsfólk skólans.

Lyfjagjafir

Samkvæmt tilmælum landlæknis um lyfjagjafir í grunnskólum eru sérstakar vinnureglur varðandi lyfjagjafir til nemenda á skólatíma.

Höfuðlús

Höfuðlús birtist reglulega í skólum landsins og er mikilvægt að foreldrar kembi hár barna sinna reglulega yfir skólaárið. Rétt er að láta skólann vita ef lús finnst í hári barns og skólahjúkrunarfræðingur getur leiðbeint varðandi lúsasmit.

Sérkennsla

Sérkennsla er ýmist innan eða utan bekkjar og annað hvort stuðningur við nemanda eða nemendahóp. Stuðningsfulltrúar aðstoða umsjónarkennara samkvæmt mati deildarstjóra sérkennslu.

Ef vikið er verulega frá námsáætlun árgangsins er einstaklingsáætlun unnin í samvinnu við foreldra sem er metin reglulega. Samstarf sérkennara við foreldra er mikilvægt og veita sérkennarar foreldrum, kennurum og stuðningsfulltrúum ráðgjöf við val á námsefni og þjálfun.

Umsjónarkennarar sækja um sérkennslu á vorin til deildarstjóra stuðningsþjónustu. Nemendum er forgangsraðað eftir stöðu þeirra í námi og öðrum forsendum og tekið mið af greiningargögnum ef til eru. Forgangsröðun er endurskoðuð á hverri önn og oftar ef þörf er á.

Yngsta stig

Áhersla á málörvun og lestur. Í einstaka tilfellum er veitt sérkennsla í stærðfræði í 2. og 3. bekk.

Miðstig

Sérkennsla er aðallega í íslensku og stærðfræði. Kennslan fer oftast fram í litlum hópum eða námskeiðum (6–8 vikur).

Unglingastig

Sérkennsla í íslensku og stærðfræði. Nemendur fara ýmist út úr bekk í lítinn hóp eða fá aðstoð inn í bekk.

Tilfinningalegir erfiðleikar eða hegðunarvandi

Nemendur með tilfinningalega erfiðleika eða hegðunarvanda geta fengið óhefðbundinn stuðning sem tekur mið af þörfum þeirra.

Til dæmis:
  • Auknar verð- eða listgreinar
  • Sértæka vinnu í félagsfærni og sjálfstyrkingu
  • Hópefli og félagsfærniþjálfun í 4.- 6. bekk
  • kynjaskipta hópa í samstarfi við Ölduna

Nemendur með íslensku sem annað tungumál fá íslenskukennslu á meðan þess er þörf. Þeir geta fengið undanþágu frá skyldunámi í dönsku og fengið í staðinn aukinn stuðning í íslensku, öðrum námsgreinum eða fengið metið nám á eigin tungumáli.

Skimun og eftirlit

Þegar verið er að ákveða hvort nemendur fari í sérkennslu eru niðurstöður úr skimunum og prófum tengdum þeim höfð til hliðsjónar. Nemendur með fatlanir og alvarleg frávik eru fyrir utan viðmiðin. Tekið er tillit til annarra aðstæðna eins og bekkjarstærðar og annars stuðnings sem er veittur. Umsjónarkennarar eða sérkennarar leggja prófin fyrir.

 

Sérdeild

Í Öldutúnsskóla er sérdeild sem er opin öllum skólahverfum bæjarins fyrir nemendur á unglingastigi með væga þroskaröskun eða alvarlega námserfiðleika.

Allir nemendur sérdeildarinnar eru skráðir í almenna bekki skólans. Sá bekkur sem nemandi er skráður í er í daglegu tali nefndur tengslabekkur og taka nemendur þátt í bekkjarstarfinu að einhverju marki. Hámarksfjöldi í deildinni eru 12 nemendur.

Einstaklingsnámskrá er gerð fyrir nemendur í upphafi skólaárs og endurmetin á milli anna. Við reglulegt mat á námi nemenda eru framfarir metnar og tekið er tillit til breytinga við gerð nýrrar áætlunar.

Starfstími sérdeildar fylgir skóladagatali Öldutúnsskóla. Deildarstjóri sérkennslu- og stuðningsþjónustu ber ábyrgð á faglegu starfi deildarinnar.

Umsókn um nám í sérdeild er alltaf háð vilja og samþykki foreldra en er einnig byggð á faglegu mati heimaskóla nemenda. Foreldrar eða forsjáraðilar sækja um nám í sérdeildinni hjá deildarstjóra stoðþjónustu skólans og hjá Mennta- og lýðheilsusviði Hafnarfjarðar. Umsóknarfrestur rennur út 30. mars á hverju ári.

Umsókn í sérdeild er oft unnin í samráði við deildarstjóra sérkennslu í heimaskóla nemandans eða fagaðila á Mennta- og lýðheilsusviði Hafnarfjarðar. Inntökuteymi skipað skólastjóra Öldutúnsskóla, deildarstjóra stuðningsþjónustu og sérkennslufulltrúa Mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðar fjallar um umsóknina og sér um innritun.

Sálfræðiþjónusta

Sálfræðingur starfar í öllum grunnskólum bæjarins. Sálfræðingur skólans sinnir greiningu, fræðslu, stuðningi og ráðgjöf en ekki meðferð. Tilvísanir til sálfræðings berast í gegnum nemendaverndarráð eða brúarteymi grunnskólans. Samþykki foreldra verður alltaf að liggja fyrir. Tilefni beiðna geta verið margvísleg en áhersla er lögð á snemmtækt mat og greiningu á stöðu nemanda vegna náms, hegðunar og sálrænna erfiðleika.

Talmeinaþjónusta

Börn sem glíma við frávik í máli eða tali eiga rétt á greiningu talmeinafræðings ásamt sérkennslu og stuðningi við nám í grunnskóla. Talmeinafræðingur veitir einnig ráðgjöf til starfsfólks grunnskóla. Foreldrar geta óskað eftir greiningu og ráðgjöf talmeinafræðings, í öllum tilvikum þarf skriflegt samþykki foreldra að liggja fyrir áður en greining fer fram.