Samstarf við aðra skóla

Nám og kennsla

Framhaldsskóli

Nemendur í 10. bekk geta valið stærðfræði 103 sem er kennd í Flensborgarskóla. Áfanginn er 3 kennslustundir og er heilsárskúrs.

Frá nóvember til febrúar eru námsbrautir framhaldsskólanna, inntökuskilyrði og innritunarferli kynnt fyrir nemendum 10. bekkjar.

Janúar

Framhaldsskólakynning í Hafnarfirði þar sem allir framhaldsskólar á höfuðborgarsvæðinu kynna sína skóla. Kynningin er í sal Flensborgarskóla og sjá námsráðgjafar grunnskólanna og Flensborgarskóla um skipulag.

Febrúar

Fulltrúar frá Flensborgarskóla og Iðnskólanum koma með ítarlegar kynningar á námsbrautum og námsfyrirkomulagi inn í 10. bekkina.

Fundað með foreldrum nemenda sem sækja um á starfsbrautum og farið með viðkomandi nemendur í heimsóknir í skólana sem þeir sækja um í. Gengið er frá þessum umsóknum.

Febrúar – apríl

Opin hús hjá framhaldsskólunum sem eru vel kynnt fyrir nemendum og foreldrum. Nemendur eru hvattir til að fara á opnu húsin.

Mars

Kynningafundur fyrir foreldra þar sem námsráðgjafi kynnir námsbrautir, inntökuskilyrði og innritunarferli.

Mars – apríl

Forinnritun í framhaldsskóla sem er kynnt fyrir nemendum. Námsráðgjafi fylgist með því að nemendur sæki um skóla og aðstoðar eftir þörfum.

Maí – júní

Lokainnritun og fylgir námsráðgjafi því eftir með nemendum og aðstoðar nemendur og foreldra eftir þörfum. Námsráðgjafi er oft í sambandi við námsráðgjafa framhaldsskólanna, fundar með foreldrum og nemendum og skrifar bréf með einstökum nemendum.

Námsráðgjafi fundar með rektorum og námsráðgjöfum Flensborgarskóla og Iðnskólans og fylgir eftir nemendum sem þess þurfa.

Leikskóli

Í október fara nemendur í 1. bekk í heimsókn í leikskólana Hvamm og Birkihvamm. Í heimsókninni fá nemendur að hitta vini sína og taka þátt í starfinu sem fer fram á leikskólunum.

Á degi íslenskrar tungu fara nemendur í 4. bekk í leikskólana og lesa fyrir börnin þar. Nemendur velja sér bækur á bókasafni skólans og æfa sig í lestrinum áður en farið er á leikskólana.

Elstu börnin á leikskólunum Hvammi og Birkihvammi (Kató og Smáralundi) koma í 3 skólaheimsóknir.

  1. Í mars fá börnin leiðsögn um skólann, litið er inn í skólastofur og sérgreinastofur.
  2. Í apríl leika börnin við nemendur í 1. bekk í frímínútum og fá sögustund á bókasafni.
  3. Í maí fara börnin í heimsókn í 1. bekk og vinna verkefni með nemendum bekkjarins sem umsjónarkennarar skipuleggja.

Skólinn tekur einnig á móti börnum úr öðrum leikskólum sem koma í skólann í 1. bekk.

Háskóli Íslands

Öldutúnsskóli er með samning við Menntavísindasvið Háskóla Íslands varðandi samstarf um kennaramenntun. Skólinn tekur við átta kennaranemum að jafnaði á ári í vettvangsnám. Um er að ræða æfingakennslu, kynnisheimsóknir, þátttöku í undirbúningi og kennslu, athuganir á skólastarfi og fleira sem varðar skólastarf almennt.

Tengsl samstarfsskóla eins og Öldutúnsskóla við Menntavísindasvið Háskóla Íslands skapa möguleika á samstarfi varðandi kennslu faggreina, samstarf um þróunarverkefni og rannsóknir.

Tónlistarskóli Hafnarfjarðar

Kennarar við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar fá aðstoð í Öldutúnsskóla til að stunda kennslu í hljóðfæraleik. Nemendur fara þá úr kennslustundum í samstarfi við foreldra og kennara.

Forskóli Tónlistarskólans fær aðstoð í skólanum ef tiltekinn fjöldi nemenda sækir um.