Í gær og í dag fengum við góða heimsókn en þá kom hann Skúli Bragi Geirdal, fjölmiðlafræðingur og verkefnisstjóri hjá Fjölmiðlanefnd og hélt fyrirlestra um netöryggi annars vegar fyrir unglingadeildina og hins vegar fyrir nemendur í 6. bekk. Fyrirlesturinn fyrir unglingana heitir “ Algoritminn sem elur mig upp“ en þar var m.a. verið að fjalla um: Hvers virði eru upplýsingarnar um okkur og hvað greiðum við fyrir aðgang okkar að samfélagsmiðlum? Mikilvægi þess að vera læs á upplýsingar og miðla í nútíma samfélagi. Fjölmiðlalæsi, auglýsingalæsi, myndlæsi o.fl. Hvernig virka algóritmar samfélagsmiðlanna og með hvaða hætti hefur tæknin áhrif á okkar daglega líf og líðan? Hvað þarf að hafa í huga varðandi samskipti á netinu, áreitni frá ókunnugum og deilingu mynda? Fyrirlesturinn fyrir 6. bekkina heitir „Netumferðarskólinn“. Netumferðarskólinn er hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda í netöryggi og styrkt af Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Fræðsluerindið er blanda af fyrirlestri, hópverkefni og samtali við börnin þar sem áherslan er á vitundarvakningu, hugtakaskilning og valdeflingu. Deila Tísta