Áherslur

Skólinn

Grænfáninn

Grænfáninn er viðurkenning eða verðlaun til skóla sem vinna að sjálfbærnimenntun á einhvern hátt. Verkefnið er hluti af alþjóðlega umhverfismenntarverkefninu Skólar á grænni grein sem rekið er af Landvernd á Íslandi.

Það er mikilvægt að nemendur geri sér grein fyrir að við eigum aðeins eina jörð og að orkulindir hennar eru ekki óþrjótandi. Öldutúnsskóli hefur fengið Grænfánann 5 sinnum, fyrst haustið 2005 og síðast 2016. Á tveggja ára fresti er umsókn um Grænfánann endurnýjuð og þá er gerð úttekt á umhverfisstefnu skólans og framkvæmd hennar.

Umhverfismerki skólans. Hnöttur með dropum, sól og laufblaði.

Haldin var teiknisamkeppni um umhverfismerki skólans vorið 2004 og var teikning Ólafar Körlu Þórisdóttur valin.

Markmið verkefnisins

  • Bæta umhverfi skólans.
  • Minnka úrgang, notkun á vatni og orku.
  • Efla samfélagskennd innan skólans.
  • Auka umhverfisvitund með menntun og verkefnum innan kennslustofu og utan.
  • Styrkja lýðræðisleg vinnubrögð við stjórnun skólans þegar teknar eru ákvarðanir sem varða nemendur.
  • Veita nemendum menntun og færni til að takast á við umhverfismál.
  • Efla alþjóðlega samkennd og tungumálakunnáttu.
  • Tengja skólann við samfélag sitt, fyrirtæki og almenning.
Markmið Öldutúnsskóla
  • Flokka sorp sem til fellur, eins og pappír, fernur, plast, ydd, matar- og ávaxtaafganga.
  • Einn bekkur hreinsar skólalóðina vikulega.
  • Minnka notkun rafmagns með því að slökkva ljós þegar þau eru óþörf.
  • Leggja áherslu á vettvangsferðir og útinám í nánasta umhverfi.
  • Standa fyrir jafningjafræðslu sem tengist umhverfismálum.

Við skólann er starfandi umhverfisnefnd. Í henni sitja fulltrúar nemenda úr öllum 7.–10. bekkjum auk 5 fulltrúa kennara.

Olweusar-áætlunin gegn einelti

Markmiðið er að skapa jákvæðan skólabrag og bekkjaranda til þess að fyrirbyggja einelti og andfélagslega hegðun.

Upprætum einelti

Haustið 2004 slóst Öldutúnsskóli í hóp þeirra fjölmörgu skóla sem hafa innleitt Olweusaráætlunina til að draga úr einelti. Áætlunin gerir ráð fyrir að allt starfsfólk skólans þekki einelti og hvernig skuli bregðast við því.

Nemendur fá fræðslu um einelti, birtingarform þess og afleiðingar fyrir bæði gerendur og þolendur. Allir bekkir skólans vinna bekkjarreglur á haustin og bekkjarfundir eru haldnir reglulega, þar sem meðal annars er tekið á samskiptum, eineltismálum og rætt um skólabrag.

Þekking foreldra á verkefninu og tilgangi þess er mjög mikilvæg. Þeir eru því hvattir til að kynna sér foreldrabækling Olweusaráætlunarinnar og starfa með skólanum við að uppræta einelti.

Eineltisráð

Í skólanum er eineltisráð sem heldur fundi tvisvar í mánuði og oftar ef þurfa þykir. Eineltisráð fer yfir allar tilkynningar um einelti, styður við þá sem eru að vinna úr málum og tryggir að unnið sé eftir áætlun skólans. Í ráðinu eru fulltrúi stjórnenda, námsráðgjafi, námsráðgjafi og hjúkrunarfræðingur. Hægt er að tilkynna einelti með tölvupósti á [email protected].

Eineltiskönnun

Viðamikil könnun um einelti er lögð fyrir í skólanum árlega.

Niðurstöður úr eineltiskönnunum

SMT-skólafærni

SMT-skólafærni þjálfar félagsfærni og æskilegri hegðun er veitt aukin athygli með markvissu hrósi og umbunum. Skýr fyrirmæli eru höfð að leiðarljósi og rækt lögð við góð samskipti.

SMT- skólafærni stendur fyrir School Management Training og byggir á PMT- foreldrafærni (Parent Management Training). Skólaskrifstofa Hafnarfjarðar, í samvinnu við félagsþjónustuna og heilsugæsluna, býður upp á námskeið fyrir foreldra til þess að vinna eftir PMT. PMT-foreldrafærni byggir á kenningu Dr. Gerald Pattersons og er oft kennd við Oregon-fylki í Bandaríkjunum og kallast þar Positive Behavior support (PBS).

Skýrar og sýnilegar reglur

Með SMT-skólafærni skapast betra námsumhverfi fyrir bæði nemendur og kennara. Reglur skólans eru skýrar og sýnilegar þannig að bæði nemendur og kennarar vita til hvers er ætlast. Skólareglurnar eru kenndar í upphafi hverrar annar og rifjaðar upp eftir þörfum.

Starfsfólk fylgir æskilegri hegðun nemenda eftir með markvissu hrósi, félagslegu eða í formi stjörnu. Þegar bekkurinn hefur safnað vissum fjölda stjörnustiga er haldin stjörnustund.

Dæmi um stjörnustundir
  • sparinesti
  • furðufatadagur
  • dótadagur
  • sleðaferð
  • kökusamkeppni
  • popp og vídeó
  • vettvangsferð
  • leikjadagur
  • baka saman